21.9.2008 | 22:08
Símenntunarrúta ferðast með menntakistu um Vestfirði
Fræðslumiðstöð Vestfjarða mun hafa víðtækt samstarf í viku símenntunar við aðila eins og Félag opinberra starfsmanna á Ísafirði, Háskólasetur Vestfjarða, Menntaskólann á Ísafirði, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Vinnumálastofnun. Farið verður í símenntunarrútu um Vestfirði, fyrirtæki og stofnanir heimsóttar á daginn og boðin stutt námskeið í hádeginu. Á kvöldin verður opnuð menntakista á völdum stöðum en úr menntakistunni getur fólk valið einstök námskeið og/eða fengið margvíslegar upplýsingar og ráðgjöf. Í hádeginu verða boðin örnámskeið á þéttbýlisstöðum sem ekki njóta menntakistunnar þar sem þræddir verða krákustígar internetsins.
Ferðaáætlun símenntunarrútunnar er eftirfarandi: Á mánudag fer hún um norðanverða Vestfirði og stoppar m.a. á Þingeyri og á þriðjudag heimsækir hún Bíldudal, Patreksfjörð og Tálknafjörð. Á miðvikudeginum, sem er símenntunardagur í fyrirtækjum, verður haldin menntasmiðja í Reykhólaskóla. Á fimmtudaginn er stefnan tekin á Drangsnes og Hólmavík og á föstudeginum er endað með glæsilegri dagskrá í nýju húsnæði Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Ísafirði.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkar: Ferðalög, Menning og listir, Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 22:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.