Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Símenntunarrúta ferðast með menntakistu um Vestfirði

Logo frmst

Fræðslumiðstöð Vestfjarða mun hafa víðtækt samstarf í viku símenntunar við aðila eins og Félag opinberra starfsmanna á Ísafirði, Háskólasetur Vestfjarða, Menntaskólann á Ísafirði, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og Vinnumálastofnun. Farið verður í símenntunarrútu um Vestfirði, fyrirtæki og stofnanir heimsóttar á daginn og boðin stutt námskeið í hádeginu. Á kvöldin verður opnuð menntakista á völdum stöðum en úr menntakistunni getur fólk valið einstök námskeið og/eða fengið margvíslegar upplýsingar og ráðgjöf. Í hádeginu verða boðin örnámskeið á þéttbýlisstöðum sem ekki njóta menntakistunnar þar sem þræddir verða krákustígar internetsins.

Ferðaáætlun símenntunarrútunnar er eftirfarandi: Á mánudag fer hún um norðanverða Vestfirði og stoppar m.a. á Þingeyri og á þriðjudag heimsækir hún Bíldudal, Patreksfjörð og Tálknafjörð. Á miðvikudeginum, sem er símenntunardagur í fyrirtækjum, verður haldin menntasmiðja í Reykhólaskóla. Á fimmtudaginn er stefnan tekin á Drangsnes og Hólmavík og á föstudeginum er endað með glæsilegri dagskrá í nýju húsnæði Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Ísafirði. 


Vika símenntunar gerir víðreist á Norðurlandi vestra

Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra mun heimsækja fyrirtæki og stofnanir á Siglufirði, Blönduósi, Hvammstanga og Skagaströnd.Með í för verða fulltrúar frá Hólaskóla og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra auk fulltrúa verkalýðsfélaga á svæðinu.

Á Blönduósi og Skagaströnd verður lögð áhersla á að kynna verkefnið „Eflum byggð“ en það er verkefni sem unnið er í samstarfi við Hólaskóla, háskólann á Hólum og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Einnig verður kynnt námskeiðið „ Aftur í nám“, en það er ætlað fullorðnu fólki sem á við lestrar- og skriftarörðugleika að stríða. Á Hvammstanga verður Grunnmenntaskólinn kynntir og einnig tungumálanámskeið sem eru í boði, en á Siglufirði verður megináherslan á almenna kynningu á Farskólanum.

Í Skagafirði verður megináherslan lögð á Hofsós, en þar verður kynning á Grunnmenntaskólanum með fulltingi kvenna sem hyggjast stunda nám í honum í vetur. Á Sauðárkróki verður opið hús í Farskólanum þar sem verða kynnt starfstengd námskeið sem Farskólinn hefur haft umsjón með fyrir opinberar stofnanir á svæðinu.Á öllum þessum stöðum verður jafnframt boðið upp á ókeypis áhugasviðsgreiningu á vegum Svæðisvinnumiðlunar á Norðurlandi vestra.


Er þörf fyrir aukna þekkingu í þjónustugreinum?

Mímir símenntun boðar til hádegisfundar þriðjudaginn 23. sept. kl. 12.15-14.00 í Skeifunni 8 í tilefni af viku símenntunar. Á fundinum verður velt upp spurningunni hvort þörf sé fyrir fræðslu í verslunargeiranum og hver vegna tækifærin sem eru til staðar eru ekki nýtt sem skyldi.

Frummælendur:

  • Helga Björk Pálsdóttir – verkefnastjóri Verslunarfagnáms hjá Mími-símenntun 
  • Sigríður Anna Guðjónsdóttir – verkefnastjóri hjá Samtökum verslunar- og þjónustu 
  • Guðríður H. Baldursdóttir – Starfsmannastjóri Kaupáss 
  • Guðfinna Harðardóttir - sérfræðingur hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins  

Fyrirkomulag - Fjórar stuttar framsögur og hópavinna í 30 mínútur. Stýring hópavinnu: Björn Garðarsson starfsmaður fagráðs Verslunar- og þjónustu og Haukur Harðarson verkefnastjóri hjá Mími-símenntun.

Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á: haukur@mimir.is


Samstarfsaðilar viku símenntunar um land allt

Framkvæmdaraðilar viku símenntunar eru símenntunarmiðstöðvarnar níu um landið og Mímir símenntun og Framvegis á höfuðborgarsvæðinu. Í viku símenntunar er lögð áhersla á að kynna þá símenntun sem í boði er, fyrirtæki verða heimsótt og boðið upp á stutt námskeið og ráðgjöf til kynningar.

Símenntunarmiðstöðvarnar á landsbyggðinni eru: 

  • Símenntunarmiðstöð Vesturlands
  • Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum 
  • Fræðslunet Vestfjarða
  • Þekkingarnet Austurlands 
  • Fræðslunet Suðurlands
  • Símey - símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar
  • Farskólinn, miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra
  • Viska, fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja 
  • Þekkingarsetur Þingeyinga 
Framkvæmdaraðilar viku símenntunar veita allar nánari upplýsingar um dagskrá á hverjum stað. Listi yfir tengla á heimasíður þeirra er í tenglalista hér til vinstri á síðunni.
Einnig má hafa samband við verkefnastjóra viku símenntunar, Aðalheiði Jónsdóttur í simenntun@simnet.is  
Menntamálaráðuneytið stendur fyrir viku símenntunar en hún er einnig styrkt af Starfsmenntaráði. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband